Það eru ekki
aðstæðurnar
heldur hugsanirnar
um þær sem vekja
viðbrögð.

Þeir sem eru þunglyndir eiga oft erfitt með að átta sig á að neikvæðar hugsanir séu til staðar og eiga oft erfitt með að verjast þeim. Fólk tekur yfirleitt eftir aðstæðum og hvernig því líður, en sjaldnar eftir hugsunum sem fara í gegnum hugann. Samt sem áður eru það hugsanirnar sem túlka og gefa aðstæðunum neikvæða merkingu. Það skiptir því miklu máli að geta tekið eftir þessum neikvæðu hugsunum til að geta breytt þeim. Við skulum skoða nokkur einkenni þessara sjálfvirku og óboðnu hugsanaSjálfvirkar neikvæðar hugsanir: Óboðnar, óæskilegar hugsanir sem hafa neikvæð áhrif á líðan..

Sjálfvirkar hugsanir krefjast engrar fyrirhafnar af okkar hálfu. Það er eins og aðstæðurnar eða atvikin komi þeim ósjálfrátt af stað.

Óboðnar hugsanir koma ósjálfrátt upp í hugann, við köllum þær ekki fram og viljum ekki einu sinni hafa þær!

Þessar sjálfvirku og óboðnu hugsanir geta líka verið eins og myndir sem við sjáum fyrir okkur, t.d. gætum við séð fyrir okkur hóp af fólki hneykslast á okkur og hrista höfuðið.

Hraðar og sundurlausar hugsanir verðum við yfirleitt ekki vör við, þær renna í gegnum huga okkar eins og stikkorð eða frasar:

Einmana ... Þoli þetta ekki ... Vonlaust ... Ekki hægt ... Get ekki ...

Við trúum hugsunum okkar eins og þær séu sannar. Ef sú hugsun fer í gegnum hugann að ég hafi gert mig að fífli þá trúi ég því kannski þó öðrum finnist það ekki.

  Mundu að ef
hægt er að venja
sig á eitthvað er
líka hægt að venja
sig af því.

Mundu líka að
æfingin skapar
meistarann!

Hugsanir okkar eru persónubundnar. Sömu aðstæður eða atvik valda ekki sömu hugsunum hjá öllum. Þegar brosað er til okkar gæti einn hugsað að verið sé að gera grín að sér en annar að verið sé að sýna vinsemd.

Keðjuverkun sjálfvirkra hugsana. Þegar sjálfvirkar neikvæðar hugsanir koma upp í hugann getur verið erfitt að stöðva þær. Ein slík hugsun hefur tilhneigingu til að kalla á aðra. Til dæmis: „Klaufi var ég að brenna kökuna.“ getur kveikt á: „Ég get aldrei lært að baka.“ og í framhaldinu: „Allt misheppnast hjá mér.“

Endurtekning sjálfvirkra hugsana. Þegar við förum að fylgjast með hugsunum sem tengjast neikvæðum tilfinningaviðbrögðum eða óþægindum er líklegt að við komum auga á að sömu eða mjög svipaðar hugsanir koma upp í hugann hvað eftir annað.

Gamall vani. Í gegnum tíðina höfum við lært að skilja og túlka það sem gerist í kringum okkur og erum býsna vanaföst. Þetta er orðið ósjálfrátt og því erfitt að breyta.

Hugsun - Tilfinningar - Hegðun - Líkamleg einkenni - Lífið og tilveran