Annar algengur bjagaður hugsunarháttur er fólginn í því að ganga of langt í alhæfingum. Við tökum einn atburð eða eitt atriði og sjáum það sem dæmi um endalausan feril ósigra eða sönnun fyrir því að allt sé glatað þegar eitthvað eitt er í ólagi.

Þegar við verðum sár vegna þess að okkur þykir aðrir hafna okkur er það oftast nær vegna alhæfinga. Áhugaleysi annarra eða höfnun getur vissulega valdið okkur tímabundnum vonbrigðum, en tæplega alvarlegri geðshræringu, nema við séum gjörn á að alhæfa.

 

DÆMI

 

  Sigga eldaði ekki bara fínan mat fyrir Halla sinn. Hún fór einnig
á hársnyrtistofu og var nýklippt og sæt. Í leiðinni keypti hún sér
kjól. Halli var glaður þegar hann kom heim, kyssti Siggu og tók
utan um hana. Hann dáðist að veisluborðinu en tók ekki strax
eftir nýja kjólnum og að hárið á Siggu hafði breyst. Hún hugsaði:
„Hann tekur aldrei eftir neinu. Hann hefur engan áhuga á mér“.