DÆMI

 

  Sigga hefur verið boðið í samkvæmi. Tilhugsunin veldur honum
hugarangri. Hann er sannfærður um að hann geti ekki lengur talað
við fólk og hann muni ekki skemmta sér neitt. Þetta gerir hann
leiðan og dapran því hann telur að hann muni missa tengsl við vini
sína og kunningja ef hann tekur ekki þátt í félagslífi þeirra. Við
skulum sjá hvernig Siggi prófar hugmyndir sínar.

 

1. Settu fram forspáForspá: Spá fyrir um eitthvað. þína um hvað muni gerast.

Ég mun ekki geta blandað geði og talað við neinn í boðinu. Þetta verður óþægilegt og leiðinlegt.

2. Skoðaðu rökin með og á móti þessari forspá.

Áður fyrr naut ég þess að fara í boð og hafði gaman af að hitta fólk. Vissulega hef ég ekki haft eins mikla ánægju af því eftir að ég varð svona þunglyndur. Samt hef ég getað notið þess stöku sinnum þrátt fyrir líðan mína. Vinir mínir og kunningjar verða þarna og þeir vita hvernig ég hef haft það og ætlast ekki til þess að ég haldi uppi fjörinu. Ef ég fer ekki gæti ég misst af tækifæri til að eiga ánægjulega stund með vinum mínum.

3. Gerðu áætlun um hvernig þú gengur úr skugga um hvort forspáin er rétt eða röng.

Ég fer og athuga hvað gerist. Ég reyni að halda mig nálægt fólki sem ég þekki til að byrja með. Reyni að slaka á og hlusta á hvað það hefur að segja.

4. Skoðaðu niðurstöðuna og hvað þú getur lært af henni.

Niðurstaðan: Ég hafði ekki gaman af þessu. Fór snemma. Hvað fór úrskeiðis? Ég var upptekinn af því allt kvöldið hvað aðrir virtust glaðir og ánægðir og sagði sjálfum mér stöðugt hvað allt væri öðruvísi hjá mér. Ég var svo upptekinn af að hugsa um sjálfan mig að ég gat ekki einbeitt mér að neinu sem var að gerast í kringum mig.

Ný leið: Næst þarf ég að leggja mig betur fram við að svara neikvæðum hugsunum mínum fyrirfram og halda þeim í burtu með því að einbeita mér að einhverju öðru þegar ég kem á staðinn. Ég gæti komið því í kring að hitta vini mína við auðveldari kringumstæður til að æfa mig. Ég get byrjað á því að hringja í Gunna og spyrja hvort hann sé til í að koma í bíó.

5. Dragðu nú lærdóm af niðurstöðum þínum.

Upprunaleg forspá mín var rétt, en það var aðallega vegna þess að ég var svo upptekinn af mínum eigin neikvæðu hugsunum.
Þrátt fyrir það hafa tveir vinir mínir haft samband við mig eftir þetta. Eitt misheppnað kvöld þýðir ekki að ég glati tengslum við alla.

Í þessu dæmi rættist neikvæð forspá. Engu að síður kom í ljós líkleg skýring á því hvers vegna þannig fór og hægt var að benda á leiðir til að forðast það í framtíðinni. Oft og einatt kemur þó í ljós að þær neikvæðu hugmyndir sem við gerum okkur fyrirfram um hlutina reynast ekki réttar. Prófaðu bara!