Ein aðferð til að rjúfa vítahring þunglyndis er að auka virkni, þ.e.a.s. að gera meira. Með virkni erum við að tala um hluti eins og að gera eitthvað fyrir okkur sjálf eða aðra, fylgja prógrammi, hreyfa okkur, gera einhverjum greiða, sinna heimilisstörfum, áhugamálum, verkefnum í vinnunni eða skólanum. Aukin virkni hefur ýmsa kosti.

Ef við erum virkari líður okkur betur

Þegar við erum að gera eitthvað beinir það huganum frá vanlíðan í það minnsta á meðan. Virkni getur líka leitt til þess að okkur finnst við vera að taka stjórnina á lífi okkar aftur og koma einhverju í verk sem skiptir máli. Það styrkir sjálfsmynd okkar að komast yfir þröskuld óvirkninnar. Við munum jafnvel komast að því að sumt sem við tökum okkur fyrir hendur veitir okkur ánægju þrátt fyrir líðanina.

Með virkni finnum við ekki til eins mikillar þreytu

Undir eðlilegum kringumstæðum þurfum við hvíld þegar við erum þreytt. Þegar við erum þunglynd er þetta aftur á móti þveröfugt. Við þurfum að gera meira til að vera ekki eins þreytt. Aðgerðaleysi gerir okkur þróttlausari og jafnvel úrvinda. Það sem meira er, aðgerðaleysi verður til þess að hugur okkar er ekki upptekinn af neinu sérstöku og þá er líklegra að hugsunin snúist um vanlíðan og erfiðleika og við finnum til meiri depurðar.

Virkni skapar áhuga til frekari aðgerða

Venjulega er það svo að áhugi okkar vaknar á einhverju og síðan framkvæmum við. Í þunglyndi snýst þetta við. Við þurfum gjarnan að byrja á því að gera hlutina til þess að fá áhuga á þeim og upplifa ánægju. Það þýðir lítið að bíða eftir að við verðum „í stuði“ til að gera hlutina. Gott dæmi um þetta er að hefja reglubundna þjálfun. Til að byrja með mætum við ef til vill af skyldurækni af því við trúum því að þetta hjálpi en þegar við förum að finna árangurinn, aukið þol og minni þreytu getur þjálfunin orðið ómissandi þáttur í tilveru okkar.

Virkni - Áhugi og ánægja - Meiri virkni

 

Virkni eykur getu þína til að hugsa

Þegar þú ert kominn af stað í virkni er eins og þú sjáir vandamálin í nýju ljósi. Það er sameiginleg reynsla þeirra sem eru þunglyndir að þegar þeir eru aðgerðalausir og óvirkir er lífið flókið, vandamálin vaxa þeim í augum og virðast óyfirstíganleg. Þegar byrjað er að glíma við vandamálin, sama hve lítil skref eru tekin, verða þau einfaldari og viðráðanlegri.