Allir finna öðru hvoru fyrir depurð. Einkenni þunglyndis eru í eðli sínu þau sömu og einkenni depurðar, nema hvað þau eru alvarlegri og langvinnari og hafa viðtæk áhrif á daglegt líf viðkomandi. Allir geta orðið þunglyndir, ungir og aldnir, konur og karlar, fátækir og ríkir. Alvarlegu þunglyndi fylgja ýmis einkenni til viðbótar því að vera dapur eða niðurdreginn. Í þunglyndi verða ekki aðeins breytingar á líðan, heldur einnig á hugsunum, líkamsviðbrögðum og hegðun.
Margir sem eiga við þunglyndi að stríða fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa á að halda. Þunglyndi er vangreindur sjúkdómur, því aðeins hluti þeirra sem eru þunglyndir fá rétta greiningu og þar með rétta meðhöndlun. Í hugrænni atferlismeðferð eru kenndar aðferðir til að takast á við þunglyndi sem fólk getur gripið til hvenær sem á þarf að halda. Því miður er algengt að fólk fái endurtekin þunglyndistímabil. Þess vegna er mikilvægt að læra og tileinka sér aðferðir til að fyrirbyggja slík bakslög.