Nú hefur þú farið í gegnum aðferðir hugrænnar atferlismeðferðarHugræn atferlismeðferð (HAM): Meðferð sem beinist að því að breyta hugsun og/eða hegðun til að hafa áhrif á líðan.. Þú hefur náð að tileinka þér ýmislegt sem þú getur notað til að bæta andlega líðan. Það sem þú hefur lært er þitt og enginn getur tekið það frá þér. En það er ekki nóg að vita hlutina, þú þarft líka að nota það sem þú veist og kannt. Núna færðu tækifæri til að viðhalda því sem þú hefur lært og þróa það áfram, nýta það í nýjum aðstæðum og með öðru fólki.

Æfingin skapar meistarann. Þetta er eins og að læra að hjóla, það er ekki einfalt, æfingin tekur tíma en þegar þú ert einu sinni búinn að læra að hjóla þá er það eitthvað sem þú kannt. Auðvitað geta komið upp svo erfiðar aðstæður eða óveður að þú þurfir aðstoð eða skjól. Einnig geta skapast þær aðstæður að þú getir ekki hjólað einn og án stuðnings, þá getur verið skynsamlegra að fá far með öðrum. Það þýðir ekki að þú hjólir aldrei meir, þú kannt að hjóla og átt hjólið og grípur til þess um leið og veður lægir eða þú hressist. Eins er með hugræna atferlismeðferð, þú hefur lært margt og ert jafnvel farinn að nýta þér það sem þú lærðir án þess að hugsa mikið um það. Þú getur alltaf gripið til þeirra aðferða sem þú hefur notað í HAM-inu, til dæmis byrjað aftur að fylla út virknitöflu, fimm þátta líkan eða hugsanaskrá. Þú þarft áfram að vera vakandi á verðinum, leita þér aðstoðar ef þér finnst þú ekki ráða við hlutina og grípa inn í um leið og þú sérð hættumerkiHættumerki: Viðvörunarmerki. á lofti.