Ein aðferð til að ná betri stjórn á hugsunum okkar er að beina athyglinni markvisst frá þeim. Þegar við festumst í gruflinu er gott að kunna aðferð til að ná okkur í burtu, til dæmis að færa athyglina frá okkur sjálfum og yfir í umhverfið.

Þetta er hægt að gera með því að þrengja athyglina og beina henni að einhverju sérstöku, til dæmis hljóðunum í kringum okkur. Við getum aðgreint hljóðin eða æft okkur í að veita bara einu hljóði athygli í einu og síðan prófað að dreifa athyglinni til skiptis á milli hljóða án þess að láta önnur hljóð trufla sig.

Einnig er hægt að æfa sig í gönguferðum með því að beina athyglinni að umhverfinu í kring, t.d. veita eftirtekt hljóðum, því sem fyrir augu ber, ilmi gróðurs eða hvernig maður hreyfir sig.