Hugsanir koma og fara. Eins og fram hefur komið hafa hugsanir áhrif á líðan. Mestu áhrifin hafa þær hugsanir sem við veitum sérstaka athygli og jafnvel festumst í. Til dæmis getur hugsunin: „Þetta var nú ekki nógu gott hjá mér“ komið upp í hugann mörg hundruð sinnum á dag. Ef við náum að skoða hugsunina úr ákveðinni fjarlægð, gætum við þjálfað okkur í að láta hana líða hjá eins og skýin á himninum eða öldurnar í sjónum. Ef þetta tekst hefur hugsunin minni áhrif á líðan okkar en ef hún fær fulla athygli.

Hins vegar ef við stoppum og dveljum við óboðna hugsun í hvert sinn sem hún kemur upp í hugann er hætta á að okkur fari að líða verr og við finnum fyrir aukinni vanmáttarkennd og depurð.

Sumir bregðast við vanlíðan með því að gera hluti sem beina athyglinni inn á við (gruflarar) á meðan aðrir beina athyglinni út á við að einhverju í umhverfinu.

 

DÆMI

 

  Gruflarar kafa ofan í líðan sína og velta fyrir sér
spurningum eins og:


Af hverju er ég þunglyndur?
Af hverju er ég svona óvirkur og áhugalaus?
Hvað er eiginlega að mér?

 

Í þunglyndi er algengt að festast í grufli enda hugsunin gjarnan treg og þar með ekki lausnamiðuð. Hætta er á að grufl leiði frekar til verri líðanar en lausna.

Mikils virði er að reyna að komast út úr gruflinu og finna eitthvað jákvætt í stöðunni. Hjálplegra væri að velta fyrir sér spurningum eins og „Hvað væri gott fyrir mig að gera núna?“

Ein ástæða fyrir því að fólk gruflar er að það heldur að með því að velta sér upp úr líðan sinni þá muni það öðlast skilning sem leiði til þess að því gangi betur að takast á við vandamál sín. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að því er þveröfugt farið.

Fólk sem veltir sér upp úr líðan sinni og gruflar mikið á erfiðara með að finna lausnir á sínum málum en hinum sem tekst að  dreifa athyglinni og hugsa um eitthvað annað eða gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt.