Stundum er mjög erfitt að koma sér í gang eða hafa sig af stað til að gera eitthvað. Þá er gott fyrir okkur að hafa tvennt hugfast. Í fyrsta lagi er þetta mjög algengt einkenni þunglyndis en ekki leti. Í öðru lagi er til lausn á þessu vandamáli.

Eitt af einkennum þunglyndis er framtaksleysi, það getur verið mikið átak að koma sér að verki. Hlutirnir vaxa okkur í augum og sýnast óviðráðanlegir. Okkur finnst við ekki komast yfir það sem við þurfum að gera í dag. Við finnum til þreytu, erum niðurdregin og frestum hlutunum. Okkur finnst að við höfum ekkert gert og að við hefðum átt að fara af stað í morgun eða í gær. Teljum okkur léleg og einskis nýt. Okkur fallast hendur.

Ein aðferð sem hefur gefist vel er að brjóta niður verkefni í litla búta og einbeita sér að hverjum og einum. Við stöndum kannski frammi fyrir einu stóru viðfangsefni. Þá er gott að skipta því niður í viðráðanlega verkhluta og byrja á þeim auðveldasta. Þegar því er lokið, líður okkur venjulega betur og höfum öðlast kjark og kraft til að takast á við þann næsta.

Stundum þurfum við að gera heilmargt eins og t.d. að taka til og gera hreint í allri íbúðinni. Þá er gott að skipta íbúðinni fyrst niður í herbergi eða svæði og síðan hverju svæði í einstaka verkhluta. Svo getum við hafist handa við það sem er aðgengilegast og þannig koll af kolli. Með þessari aðferð geta hlutirnir tekið stuttan eða langan tíma. En við vinnum verkin.

Gott er að setjast niður, jafnvel með einhverjum öðrum og fara yfir það sem við þurfum að gera eða teljum nauðsynlegt og helst að skrifa það niður á blað. Þegar við höfum verkefnin fyrir framan okkur á blaði finnst okkur þau stundum miklu minni og auðleysanlegri heldur en þegar við vorum að hugsa um þau.

 

VERKEFNIBlýantur

 

Verkefnin er yfirleitt hægt að fylla út og prenta, en EKKI að vista.
Til að vista útfyllt eyðublöð þarf að vera með nýjustu útgáfu af Foxit Reader.

 

PDF Skref fyrir skref

 

SKREF FYRIR SKREF

  Hér eru skrefin sem þú getur tekið:

Gerðu lista yfir allt sem þú hefur frestað eða látið sitja á hakanum
Settu verkefnin í forgangsröð
Taktu fyrsta verkefnið og bútaðu það niður í lítil skref eða áfanga
Æfðu verkefnið í huganum, skref fyrir skref
Skrifaðu niður neikvæðar hugsanir sem leita á hugann
Nú skaltu byrja á verkefninu skref fyrir skref
Skrifaðu niður það sem þú hefur gert
Einbeittu þér að því sem þú hefur náð að framkvæma
Taktu fyrir næsta verkefni á listanum

 

Þegar þú hefur bútað verkefnið þannig niður skaltu taka eitt fyrir í einu. Þú ákveður fyrst hvenær þú ætlar að leysa verkið og úthlutar þér tíma til þess. Notaðu t.d. VIKUÁÆTLUN til að gera þetta. Ef þú lýkur ekki við verkið á þeim tíma sem þú úthlutaðir þér þarftu ekki að ljúka því og láta annað víkja til hliðar. Þú úthlutar þér aftur tíma síðar og þannig koll af kolli þar til verkinu er lokið. Aðalatriðið er að:

Ákveða hvenær þú ætlar að vinna verkið og nota úthlutaðan tíma í það.