Ef við komum því ekki í verk sem við þurfum eða langar til að gera gæti verið að neikvæðar hugsanir væru að halda aftur af okkur. Hér koma nokkur dæmi um slíkar hugsanir og skynsamleg svör við þeim.

Neikvæðar hugsanir Skynsamlegt svar
1. Ég get ekki gert neitt. Hvernig myndir þú leysa málið ef þú værir ekki þunglyndur? Er einhver sem gæti gefið þér ráð varðandi hluti sem þú veist ekki hvernig þú átt að ráða fram úr?
2. Ég get ekki farið eftir stundatöflu, ég hef aldrei getað farið eftir áætlunum. Að skrifa niður er tækni sem þú getur tileinkað þér. Þú hefur kannski ekki gert þetta áður en hver segir að þú getir ekki lært það. Stundum hefurðu notað lista til að versla og til að muna eftir hlutum til að taka með í frí. Þú gætir byrjað á að skrá niður allt sem þú ætlar að gera.
3. Það er allt of mikið að gera, ég ræð ekki við þetta. Það er ekki víst að þetta sé rétt. Að trúa þessu er hluti af depurðinni. Ef þú skrifar niður það sem þú þarft að gera, þá virðist það ekki eins yfirþyrmandi. Þú þarft ekki að gera þetta allt í einu. Þú getur gert eitt í einu.
4. Þetta er of erfitt. Þetta virðist erfitt vegna þess að þú ert dapur. Þú hefur gert erfiðari hluti en þetta áður.
5. Ég veit ekki hvernig ég á að fara að þessu. Hugmyndin er að reyna, ekki að takast fullkomlega. Betra er að reyna og kanna hvernig þér gengur heldur en að gera ekkert í málinu.
6. Mig langar ekki til þess. Það getur verið rétt, en er betra fyrir þig að gera hlutina eða ekki? Hvort mun fá þig til að líða betur og finnast að þú sért að stjórna eigin lífi?
7. Ég er ekki tilbúinn til þess núna, ég bíð þar til mér líður betur. Þú veist ekki hvort þú ert tilbúinn nema að reyna. Ef þú ætlar að bíða þar til þér líður
betur, þá gerir þú líklegast aldrei neitt. Að framkvæma fær þig til að líða betur.
8. Það er of seint, ég hefði átt að vera búinn að þessu. Kannski hefði verið betra ef þú hefðir gert þetta fyrr. Málið er að þú gerðir það ekki. Sektarkennd mun ekki hjálpa þér. Betra er að gera hlutina núna í stað þess að
eyða tímanum í eftirsjá. Betra seint en aldrei.
9. Ég get ekki ákveðið á hverju ég byrja. Það skiptir í raun ekki máli. Það mikilvægasta á þessu stigi er að gera eitthvað. Byrjaðu til dæmis á því sem er fremst í stafrófinu. Þegar þú ert byrjaður verður
líklega skýrara hvað á að gera næst.
 10. Það er tilganglaust að reyna. Ég klúðra þessu bara og þá líður mér ennþá verr. Þú veist það ekki nema með því að reyna. Enginn er að biðja um að þetta verði fullkomið, jafnvel þótt þú klúðrir þessu þá er það ekki heimsendir. Þú getur lært af
mistökum þínum ef þú tekur þau ekki of alvarlega.
11. Ég mun ekki hafa neitt gaman af því. Hvernig veistu það? Trúlega ertu ekki skyggn. Kannski mun þér líka þetta betur en þú áttir von á, þegar þú ert byrjaður. Það hefur gerst áður.
 12. Ég kem ekki til með að geta gert allt sem ég set mér fyrir. Enginn nær að gera allt sem hann ætlar sér alltaf svo að það er engin ástæða til að láta sér líða illa yfir því. Áður en þú varðst þunglyndur og náðir ekki að ljúka því sem þú ætlaðir þér þá frestaðir þú því bara til næsta dags. Gerðu það sem þú getur og
gleymdu því sem þú getur ekki. Heimurinn ferst ekki þó að þú þrífir ekki háaloftið í dag.
 13. Ég geri ekki neitt. Er það örugglega rétt? Er mögulegt að þú takir ekki eftir því sem þú gerir? Hvers vegna skráir þú ekki niður það sem þú gerir í nokkra daga og sérð svo hvað kemur út úr því? Kannski finnst þér bara að þú sért ekkert að gera.
14. Ég er ekki að gera neitt sem máli skiptir. Þú sást hlutina ekki í þessu ljósi áður en þú varðst þunglyndur. Þú varst að gera mikið til það sama þá og nú en þú sást tilganginn með því þó að ekkert af því væri
stórbrotið eða spennandi. Ef þú gerir lítið úr öllu sem þú gerir er hætta á að smám saman dragi úr kjarkinum.
15. Ég á ekki skilið að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Ég ætti að halda áfram með það sem ég verð að gera. Að gera það sem þér finnst skemmtilegt hjálpar þér til að líða betur. Er það ekki það sem þú vilt? Ef þú nærð að slaka á og líða aðeins betur er líklegt að þér gangi betur með það sem þarf að gera.
16. Já, ég þvoði bílinn. Hvað er svona
merkilegt við það?
Venjulega væri það að þrífa bílinn ekkert sérstakt. En af því þér leið illa, var það mjög erfitt, svo að bílþvotturinn var afrek. Þú átt skilið hrós fyrir það.

 

Í sumum tilvikum er nóg að skipuleggja tímann og brjóta verkefni niður í einstök viðráðanleg verk til þess að hætta að fresta eða koma okkur hjá því að glíma við vandamál. Í öðrum tilvikum kemur þetta ekki að gagni vegna þess að hugsanir okkar standa í veginum. Þessar hamlandi og oftast nær óraunhæfu og órökréttu hugsanir þurfum við að skoða og reyna að breyta þeim.

Þegar við höfum okkur ekki í að gera það sem við þurfum að gera eða vitum að við hefðum gott af, getur verið hjálplegt að skoða hvað við erum að hugsa. Skoðaðu nú verkefnablaðið hér á eftir.

 

1. SKREF

Það sem þú þarft eða langar til að gera en gerir ekki:

Að bjóða besta vini mínum og konunni hans heim til mín um helgina og eiga með þeim góða kvöldstund.

Þetta er eitthvað sem mig hefur langað til að gera eða sé eftir að hafa ekki gert fyrir löngu. Nú kem ég mér ekki að því.

 

2. SKREF

Hvað fer í gegnum huga þinn um leið og þú frestar verkinu eða kemur þér hjá því?

1. hugsun:
Æ, ég er ekki í stuði til að gera þetta núna um helgina.

2. hugsun:
Æ, þá þarf ég að taka til í allri íbúðinni. Ég hef bara ekki orku í það!

3. hugsun:
Ég er búinn að vera í svo miklu óstuði undanfarið að þetta verður ömurlegt partí. Hvað ætli ég geti verið að bjóða fólki heim í þessi leiðindi!

 

3. SKREF

Veldu eina af þessum hugsunum og reyndu að smíða skynsamlegt svar við henni.

Við veljum þriðju hugsunina:
Ég er búinn að vera í svo miklu óstuði undanfarið að þetta verður ömurlegt partí. Hvað ætli ég geti verið að bjóða fólki heim í þessi leiðindi!

 

SKYNSAMLEGT SVAR

Ekki bætir aðgerðaleysi og einangrun líðan mína. Ef það er eitthvað sem gæti komið mér úr óstuði eða létt mér lund þá er það að hitta annað fólk. Ég ber heldur ekki ábyrgð á því einn að samkvæmið verði skemmtilegt. Vinum mínum líður kannski betur en mér og munu hafa góð áhrif.

 

VERKEFNIBlýantur

 

Verkefnin er yfirleitt hægt að fylla út og prenta, en EKKI að vista.
Til að vista útfyllt eyðublöð þarf að vera með nýjustu útgáfu af Foxit Reader.

 

PDF Hugsanir sem standa í vegi framkvæmda