Við setjum okkur reglur sem fela í sér að við eigum eða verðum skilyrðislaust að gera eða vera eitthvað og megum aldrei gera eða vera eitthvað annað. Þegar við stöndum ekki undir kröfum okkar og væntingum er hætta á að það valdi vonbrigðum og sjálfsásökunum.

Við getum einnig beint þessum boðum og bönnum að öðrum í kringum okkur. Slíkar kröfur verða auðvitað til þess að við verðum sífellt fyrir vonbrigðum með aðra. Þá verðum við ýmist reið, því aðrir eru t.d. ósanngjarnir af því þeir gera eitthvað sem þeir „mega ekki“ eða niðurdregin og döpur, því öðrum þykir t.d. ekki nógu vænt um okkur til þess að gera eins og okkur líkar. „Ef þú elskaðir mig......þá“.

 

Stop

 

Við skulum skoða nokkur óraunhæf boð og bönn eða kröfur sem aldrei er hægt að standa undir:

 • Ég má ekki gera mistök.
 • Ég verð alltaf að vera örlátur, tillitssamur, kjarkmikill og ráðagóður.
 • Ég má aldrei vera eigingjarn, ragur eða ráðalaus.
 • Ég verð alltaf að vera ánægður.
 • Ég verð alltaf að skilja allt strax.
 • Ég verð alltaf að gera allt sem ég ætla mér að gera á tilsettum tíma.
 • Ég verð að vera fullkominn elskhugi, foreldri, vinur, kennari, námsmaður og maki.
 • Ég verð að standa á rétti mínum en ég má aldrei styggja neinn.
 • Ég má aldrei vera þreyttur eða veikur.
 • Ég verð alltaf að vera í góðu formi og vel upplagður.
 • Ég verð að vera fullkominn starfskraftur.

 

 

DÆMI

 

  Í dæminu sem við höfum tekið af Siggu eru nokkur óraunhæf boð og bönn
sem bærast í huga hennar:


„Ég á að vera fullkominn bílstjóri.“

„Rómantísk máltíð verður að vera fullkomin.“

„Halli á að taka eftir hárinu á mér eða kjólnum án þess að ég bendi honum á það.“

„Við eigum að vera jafn yfir okkur ástfangin og hrifin eins og í tilhugalífinu.“

„Halli má ekki skipta skapi.“