Sjálfsásökun

 

Stundum erum við sannfærð um að atburðarás snúist um okkur án þess hún geri það. Við teljum okkur ábyrg fyrir atvikum eða atburðum sem eru ekki á okkar valdi. Sjálfsgagnrýni kallar oft fram sektarkennd.

 

DÆMI

 

  Þegar Halli skiptir skapi eða er þungt hugsi er Sigga venjulega sannfærð um að hún hljóti
að eiga hlut að máli. Hún heldur að hann skipti skapi vegna einhvers í fari hennar eða vegna
einhvers sem hún hefur sagt eða gert. Í framhaldinu reynir hún oft að geta sér til um ástæðurnar
með því að lesa hugsanir hans.

Kvöldið eftir bóndadaginn kom Halli heim úr vinnunni mjög alvarlegur og þegjandalegur.
Hann sagði fátt, horfði á sjónvarpið annars hugar og snemma kvölds sagðist hann vera þreyttur
og ætlaði að fara að sofa. Sigga var sannfærð um að hún hefði sagt eða gert eitthvað sem kom
honum úr jafnvægi. Í stað þess að spyrja hvort eitthvað væri að, gat hún sér þess til að hann
væri óánægður yfir því hvernig kvöldið áður hafði farið. Hún ásakaði sjálfa sig fyrir að vera
leiðinleg og fannst hún gera Halla óhamingjusaman. ,,Aumingja Halli, sem alltaf er svo jákvæður;
hann á betra skilið”.

Sigga vissi ekki að ástæðan fyrir því hvernig Halla leið var sú að mikið álag var í vinnunni. Hann
hafði ekki náð að ljúka verkefni á tilsettum tíma og hafði áhyggjur af því. Hann fór snemma að
sofa af því hann vildi vera í góðu formi daginn eftir. Sigga var sannfærð um að Halli væri
niðurdreginn og dapur vegna þess að kvöldið áður hafi misheppnast, svo að henni datt aldrei
í hug að spyrja hvað angraði hann.