Við metum og túlkum atvik og drögum ályktanir á hæpnum forsendum án nægilegra heimilda og getum í eyðurnar. Með öðrum orðum þá gefum við okkur niðurstöður án þess að staðreyndir liggi fyrir. Hjá þunglyndum eru það einkum tvenns konar skyndiályktanir sem eru áberandi, hugsanalestur og hrakspárHrakspár: Þegar gengið er út frá því fyrirfram að hlutirnir muni ganga illa..

Hugsanalestur

Ein tegund skyndiályktana er þegar við göngum út frá því að við vitum hvað aðrir eru að hugsa og meina án þess að hafa nokkrar heimildir fyrir ályktunum okkar. Við erum svo sannfærð um að við höfum rétt fyrir okkur að við göngum ekki úr skugga um hvort svo sé.

 

DÆMI

 

  Þegar Sigga og Halli voru búin að borða komu þau sér fyrir í
þægilegri stólum og fengu sér kaffi og konfekt. Eftir stutta stund
spurði Halli: „Langar þig að fara eitthvað út á lífið?“ Þá hugsaði
Sigga: „Hann nennir ekki að vera einn með mér, því honum
finnst ég svo leiðinleg.“

 

 

Hrakspár

Önnur tegund skyndiályktana er þegar við göngum fyrirfram út frá því að hlutirnir fari illa og látum eins og hrakspáin sé þegar orðin að veruleika. Okkur líður að sjálfsögðu í samræmi við það.

 

DÆMI

 

  Ekkert varð úr því að Sigga og Halli færu út, því Siggu langaði
ekki. Hún sagðist vera svolítið þreytt, en í raun og veru var hún
að hugsa: „Það verður ábyggilega hundleiðinlegt.“ Allt í einu
sagði Halli upp úr eins manns hljóði: „Heyrðu, ég fékk úthlutað
sumarbústaðnum eins og þú varst búin að tala um.“ Sigga sagði
bara jæja en hugsaði: „Það verður ábyggilega vonlaus ferð alveg
eins og þetta kvöld.“