Reykjalundur

 

 

Þeir sem eru þunglyndir setja sér oft og tíðum mjög háleit markmið og gera miklar kröfur til sín. Til dæmis telur þunglynt fólk oftast nær að það eigi að vera jafn fært um að kljást við alla hluti þegar því er mjög þungt í skapi og þegar því líður vel. Þetta er einfaldlega ekki raunsæ krafa og opnar aðeins fyrir allar gáttir niðurdrepandi sjálfsgagnrýni og niðurrifshugsana.

Það er ekki hægt að gera allt 100% rétt eða vel hverju sinni. Ef við gerum okkur slíkar væntingar leggjum við fyrir okkur þá gildru að mistakast flest sem við gerum. Þó við sættum okkur við að vera ekki fullkomin hefur það ekki í för með sér að við þurfum að gefa upp á bátinn að leitast við að standa okkur vel. Það ætti frekar að gefa okkur færi á að vera raunsæ og taka tillit til þess hvernig okkur líður og í hvaða formi við erum þegar við setjum okkur fyrir. Þá er líklegra að okkur takist það sem við ætlum okkur.

Árangur vekur með okkur betri líðan og næsta skref verður auðveldara. Ef við gerum ráð fyrir að vera ekki fullkomin þýðir það líka að við getum frekar lært af erfiðleikum og mistökum í stað þess að líða illa yfir þeim og koðna niður í hjálparleysi. Sagt hefur verið að betra sé að sjá eftir því sem maður gerði, en því sem maður gerði ekki.

 

DÆMI

 

  Sjálfvirk neikvæð hugsun:
Þetta er ekki nógu gott. Ég hefði átt að ljúka við allt sem ég
ætlaði að gera.

Skynsamlegt svar:
Ég get ekki ætlast til að koma öllu í verk sem ég ætla mér. Ég
er enginn guð, ég er takmarkaður eins og allar mannlegar verur.
Það hefði verið gott að vera búinn. Þó ég hafi ekki lokið við
verkið er það ekki heimsendir. Betra er að horfa á það sem ég
hef komið í verk fremur en það sem ég á eftir að gera. Það er
líklegra til að hvetja mig til dáða til að halda áfram.