Til að skilja þetta betur skulum við taka dæmi frá Siggu og Halla. Sigga er í endurhæfingu á Reykjalundi eftir að hafa lent í árekstri og tognað á hálsi. Hún er með stöðuga verki og hefur verið döpur. Hún situr frammi á gangi þegar sjúklingur í hjólastól fer framhjá. Strax á eftir kemur annar sjúklingur með göngugrind. Sigga fer að hugsa um það að aðrir sjúklingar á Reykjalundi séu í mun meiri þörf en hún fyrir endurhæfingu, þeir séu allir miklu veikari. Það sé ekkert að henni miðað við hina. Sigga verður svo döpur við þessar hugsanir að hún fer upp í rúm og sefur af sér leikfimitíma. Hún vaknar við það að Halli hringir og kvartar yfir þvottinum sem farinn er að hlaðast upp heima. Sigga verður enn daprari og fer að hugsa um að hún verði örugglega látin fara af Reykjalundi. Hún eigi ekki skilið að vera í endurhæfingu.

Hvernig stendur á því að Sigga er svona fljót að dæma sjálfa sig? Er mögulegt að hún hagi sér í samræmi við lífsreglunaLífsreglur: Hugmyndir, kröfur eða reglur um hvernig við eða aðrir „eigum“ að vera. ef ég stend mig ekki þá verður mér hafnað? Það er ekki ólíklegt því Sigga er nefnilega sannfærð um að ef hún standi sig ekki, líki engum við hana og henni verði hafnað. Þetta gerir hana ofurviðkvæma fyrir athugasemdum frá öðrum. Eins dæmir hún sjálfa sig mjög hart ef henni tekst ekki að gera hlutina eins og henni finnst að þeir eigi að vera.

En af hverju er Sigga þeirrar skoðunar að hún verði alltaf að standa sig svo öðrum líki við hana og hvers vegna er henni það
svona mikilvægt? Hugsanlega hefur hún það kjarnaviðhorfKjarnaviðhorf: Viðhorf eða grunntrú sem við höfum til okkar sjálfra, annarra og lífsins í heild. að hún sé einskis virði og því sér hún og túlkar lífsreynslu sína í þessu ljósi. Sá sem er sannfærður um að hann sé einskis virði er líklegri til að túlka það sem miður fer sem staðfestingu á því. Vandinn er að enginn nær að standa undir þeim kröfum til sjálfs sín að gera allt óaðfinnanlega og að öllum líki vel við mann.