A Á B D E F G H J K L M N Ó R S T U V Y Ý Þ

Að vera í núinu: Vera með athyglina hér og nú á þessari stundu en ekki í fortíð eða framtíð.

Aðgerðir: Framkvæmdir og leiðir.

Aðstæður: Hvar varstu, hvað varstu að gera?

Aflagður: Lagður niður, hætt við.

Atferli: Hegðun, framkoma, hátterni.

Atferlistilraun: Felst í því að prófa skoðanir eða hugmyndir með því að láta á þær reyna og sjá hvað gerist.

Athyglisþjálfun: Er aðferð sem kölluð er attention training á ensku og miðar að því að dreifa athyglinni markvisst frá  neikvæðum hugsunum m.a. með því að beina athyglinni að einhverju öðru t.d. hljóðum í umhverfinu, því sem fyrir augu ber, lykt eða hreyfingu.

Ákveðni: Að tjá á beinan, heiðarlegan og viðeigandi hátt hugsanir, tilfinningar, þrár og þarfir.

Áhrifavaldar: Það sem orsakaði eða hafði áhrif.

Áhættuþættir: Það sem eykur hættuna á að vandamál skapist.

Bakslag/hrösun: Afturkippur, fara aftur í sama farið.

Bataferli: Taka framförum í átt að bata.

Beisla hugann: Að ná stjórn á hugsunum.

Bjagaðar hugsanir: Órökréttar eða skekktar hugsanir. Hugsanaskekkjur.

Boðefni: Efni sem berst milli tauga.

Dopamin: Boðefni í heila.

Einhliða: Sem tekur aðeins mið af einni hlið máls.

Endorfin: Boðefni í heila.

Forspá: Spá fyrir um eitthvað.

Fortíðareftirsjá: Sjá eftir liðnum tíma.

Frammistaða/færni: Það hvernig einhver stendur sig. Hvernig gengur að gera hlutina.

Framtíðarótti: Ótti eða hræðsla við framtíðina.

Grufl: Er þýðing á enska orðinu rumination. Að festast í hugsunum um vandamál í stað þess að leita lausna.

Grunntrú: Viðhorf eða hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf, aðra eða lífið, einnig kallað kjarnaviðhorf.

Hámarksáreynsla: Mesta mögulega líkamleg áreynsla sem viðkomandi þolir.

Hrakspár: Þegar gengið er út frá því fyrirfram að hlutirnir muni ganga illa.

Hugleiðingar: Íhuga, velta fyrir sér hlutunum.

Hugræn atferlismeðferð (HAM): Meðferð sem beinist að því að breyta hugsun og/eða hegðun til að hafa áhrif á líðan.

Hugsanalestur: Að telja sig vita hvað annar er að hugsa.

Hugsanaskekkjur: Órökréttar eða skekktar hugsanir. Bjagaðar hugsanir.

Hættumerki: Viðvörunarmerki.

Hörmungarhyggja: Að búast við því versta.

Jákvæð hegðun: Æskileg hegðun.

Jákvæðni: Bjartsýni, horfa á jákvæðu hliðarnar.

Kjarnaviðhorf: Viðhorf sem við höfum til okkar sjálfra, annarra og lífsins í heild. T.d. ég er..., aðrir eru..., lífið og tilveran  er.... Kjarnaviðhorf eru stundum kölluð grunntrú.

Krítískir atburðir: Afdrifarík atvik eða annað mikilvægt sem gerðist í lífinu.

Kveikjur: Það sem hrindir eða ýtir af stað. Þýðing á enska orðinu triggers.

Langsótt grufl: Vangaveltur sem byggja á haldlitlum/litlum rökum.

Langtímamarkmið: Stærri markmið að stefna að til lengri tíma.

Lausnamiðað: Að hugsa í lausnum eða finna leiðir til úrbóta.

Leiðbeinandi atriði: Hjálplegar vísbendingar.

Lífsreglur: Hugmyndir, kröfur eða reglur um hvernig við eða aðrir „eigum“ að vera. T.d. ég má ekki..., ég verð..., ef...þá....

Líkamstjáning: Túlkun/tjáning með hreyfingu eða látbragði.

Líkamsviðbrögð: Líkamleg svörun við áreiti. Líkamleg einkenni.

Mótrök: Rök á móti, t.d. neikvæðum hugsunum.

Neikvæð hegðun: Óæskileg hegðun.

Neikvæð rörsýn: Þegar einblínt er á eitt neikvætt smáatriði eða eina hlið á máli þangað til það byrgir sýn á heildarmyndina.

Niðurrifshugsanir: Neikvæðar óhjálplegar hugsanir.

Noradrenalin: Boðefni í heila.

Óréttmætar alhæfingar: Við tökum einn atburð eða eitt atriði og sjáum það sem dæmi um endalausan feril ósigra eða  sönnun fyrir því að allt sé glatað þegar eitthvað eitt er í ólagi.

Ósanngjarn samanburður: Við miðum veikleika okkar við styrkleika annarra.

Rauður þráður: Samhengi, síendurtekið, gegnumgangandi.

Samskipti: Tjáskipti milli fólks, bæði með orðum og líkamstjáningu.

Serotonin: Boðefni í heila.

Setja mörk: Láta ekki ganga á rétt sinn.

Sjálfsmat/sjálfsímynd/sjálfsstyrkur/sjálfstraust: Felur í sér hvernig viðkomandi lítur á sig sem einstakling.

Sjálfsefling: Að styrkja sjálfsmat og sjálfstraust.

Sjálfmiðun: Við gerum okkur persónulega ábyrg fyrir atvikum eða atburðum sem eru ekki á okkar valdi eða teljum  atburðarás snúast um eða vera vegna okkar.

Sjálfvirkar neikvæðar hugsanir: Óboðnar, óæskilegar hugsanir sem hafa neikvæð áhrif á líðan.

Skammtímamarkmið: Smærri markmið að stefna að, oft til styttri tíma.

Skýr skilaboð: Skilaboð sett fram á skiljanlegan og ákveðinn hátt.

Skyndiályktanir: Við metum og túlkum atvik og drögum ályktanir án nægilegra heimilda og getum í eyðurnar.

Skýr tjáskipti: Samskipti þar sem allt er skiljanlegt og greinilegt. Það fer ekki á milli mála við hvað er átt.

Streituvaldar: Þættir sem orsaka streitu.

Styrkleikar: Kostir og jákvæðir þættir.

Tilfinningarök: Við ruglum saman staðreyndum og hvernig okkur líður. Þó að mér líði eins og „aumingja, er ég þá „aumingi“?

Tjáning: Koma einhverju á framfæri með orðum eða líkamstjáningu.

Tvöföld skilaboð: Óljós tjáning – segja eitt en meina annað.

Uppburðarleysi: Feimni, óframfærni. Að virða ekki eigin þarfir. Láta undan þegar hagsmunir rekast á. Standa ekki á eigin rétti.

Uppbyggjandi hugsanir: Jákvæðar og styrkjandi hugsanir.

Uppnefni: Ein mistök eða jafnvel frammistaða í meðallagi gerir okkur að fíflum, bjánum, aumingjum, letingjum o.s.frv.

Vakandi athygli: Er þýðing á enska hugtakinu mindfulness og er stundum kallað gjörhygli, árvekni eða vakandi nærvera. Þessi aðferð beinist m.a. að því að vera meðvitaður um það sem er að gerast hér og nú án þess að dæma t.d. með því að leyfa neikvæðum hugsunum að líða hjá án þess að veita þeim sérstaka eftirtekt.

Viðhorf til hugsana: Er þýðing á enska hugtakinu metacognitive beliefs. Hvernig þú lítur á þínar hugsanir. „Hugsanir um hugsanir“.

Viðhorf: Afstaða, hvernig við lítum á hlutina.

Viðmiðunarpunktur: Hvað þú miðar við.

Virkni: Það sem þú gerir.

Virknitafla: Skráningarblað fyrir það sem þú ert að gera yfir daginn og nær yfir eina viku.

Yfirgangur: Þegar gengið er á rétt annarra. Felur oft í sér að særa tilfinningar. Fara sínu fram án þess að virða vilja eða líðan annarra.

Ýkjur- minnkun: Við gerum meira úr vandamálum eða takmörkunum okkar og/eða gerum lítið úr eða drögum úr þýðingu æskilegra eiginleika eða færni.

Þema: Meginviðfangsefni.

Þolþjálfun: Þjálfun sem reynir á hjarta, lungu og blóðrásarkerfi t.d. rösk ganga, hjólreiðar eða skokk.