Þegar fólk verður þunglynt kemur það oft ekki auga á vandamál sem það hefur getað leyst með góðum árangri áður fyrr. Að sama skapi gleymir það gjarnan hæfni sinni og getu sem gæti komið að notum við að leysa úr yfirstandandi erfiðleikum. Okkur hættir til að einblína á mistökin og veikleikana. Sumir eiga jafnvel erfitt með að rifja upp einn einasta styrkleika eða hæfileika í fari sínu. Það er þýðingarmikið að hafa myndina af sjálfum sér í raunsæju jafnvægi. Auðvitað er margt sem þú ert ekki mjög fær í að gera, hlutir sem þú sérð eftir og ýmislegt í fari þínu sem þú vildir gjarnan breyta. En hvað með hina hliðina. Þú ert góður í einhverju, hvað er það? Hvað kanntu vel við í fari þínu þegar þú ert ekki þunglyndur? Hvað metur annað fólk við þig? Hvernig hefurðu glímt við aðra erfiðleika í lífinu með árangri? Hvaða hæfni, aðstöðu og möguleika getur þú nýtt núna sjálfum þér til framdráttar?
DÆMI
Sjálfvirk neikvæð hugsun: Ég er búinn að klúðra lífi mínu. Ég hata sjálfan mig. Hvers vegna að reyna þetta? Skynsamlegt svar: Þetta er ekki satt. Það er margt sem ég hef gert ágætlega. Ég kem bara ekki auga á það vegna þess að slæm líðan stendur í veginum. Ef ég væri svona vonlaus og misheppnaður ætti ég enga vini. En ég á fjölskyldu og vini, sem þykir vænt um mig. Það hlýtur að segja eitthvað. Sú staðreynd að ég er að reyna að takast á við og vinna mig út úr þunglyndinu er líka merki um styrkleika. |