Getur verið að þú ætlist til miklu meira af sjálfum þér en þú ætlast til af öðrum? Hvað segðir þú við t.d. vin eða vinkonu, sem væri í sömu stöðu og þú? Værir þú jafn óvæginn og harður og þú ert við sjálfan þig? Eða myndir þú kannski hrósa þeim og hvetja þá til að takast á við erfiðleikana? Þú hefur alveg efni á því að vera jafn alúðlegur og skilningsríkur við sjálfan þig eins og þú myndir vera í garð annarra. Hvernig heldur þú að vini þínum liði ef það stæði maður yfir honum sem væri stöðugt að skamma hann og benda á mistök og veikleika? Það sama gildir um þig!
DÆMI
Sjálfvirk neikvæð hugsun: Ég er ömurlegur. Ég á ekki að taka þessa smámuni nærri mér. Skynsamlegt svar: Ef einhver annar tæki þessa hluti nærri sér fyndist mér það ekki smámunir. Ég myndi sýna samúð og kannski reyna að hjálpa til við að leysa málin. Ég myndi örugglega ekki segja að hann væri ömurlegur. Það væri engin hjálp í því. Ég ætti að sýna sjálfum mér sömu samstöðu og ég myndi sýna öðrum. |