Eftirtalin einkenni eru algeng hjá þeim sem þjást af þunglyndi en það er þó einstaklingsbundið hvernig þau birtast. Greining þunglyndis byggist á einkennum sem tengjast tilfinningum, hugsun og hegðun, alvarleika þeirra og afleiðingum fyrir einstaklinginn og líf hans.
Depurð er hluti af daglegu lífi. En það geta líka allir orðið þunglyndir. |
EINKENNI
Þú ert mjög niðurdreginn, dapur, leiður, búinn að fá nóg, dofinn eða tómur.
Þú upplifir að ekkert sé ánægjulegt lengur, að ekkert skipti máli, jafnvel að lífið sé tilgangslaust.
Þér finnst þú ekki vera nógu góð manneskja eða jafnvel einskis virði.
Það þarf minna til að þú pirrist og reiðist út í sjálfan þig og aðra.
Sá sem er þunglyndur sér frekar neikvæðar hliðar þess sem gerist og túlkar gjarnan á versta veg. Hugsanirnar snúast um að ekkert muni ganga upp og tilveran er almennt dökk.
Hugsanirnar snúast um tilgangsleysi lífsins og að það eigi ekki eftir að breytast. Vonleysið getur orðið svo alvarlegt að þú trúir ekki lengur að það taki því að reyna að berjast fyrir breytingum.
Kvíðatilfinning fylgir alltaf alvarlegu þunglyndi. Áhyggjur og spenna eru hluti af kvíðanum, án þess að þú gerir þér endilega grein fyrir af hverju.
Þú finnur fyrir stöðugri þreytutilfinningu, sem lagast ekki þrátt fyrir hvíld.
Óvirkni og framtaksleysi getur gengið svo langt að þú liggur fyrir stóran hluta dags og nærð jafnvel ekki að sinna grunnþörfum þínum eins og að næra þig og þrífa.
Þú dregur þig í hlé frá samskiptum eins og við fjölskyldu og vini. Þessi félagskvíði getur jafnvel orðið til þess að þú hættir að geta mætt í vinnu.
Algengt er að finna fyrir miklum pirringi eða óróleika. Þú getur átt erfitt með að vera kyrr eða fundið fyrir innri óróleika.
Líkamsstarfssemin og jafnvel hugsunin verður hægari í alvarlegu þunglyndi. Þannig geta aðrir séð hægari hreyfingar og skynjað tregðu í hugsun. Jafnvel meltingin getur orðið tregari.
Þunglyndi fylgja oft erfiðleikar með einbeitingu sem geta orðið það miklir að þú átt erfitt með að fylgjast með sjónvarpi og lesa eða fylgjast með samræðum.
Margir upplifa minnistruflanir samhliða þunglyndi eins og að muna ekki nöfn eða hvar þeir hafa látið hluti frá sér. Þeim virðist auðveldara að muna neikvæða atburði fremur en jákvæða, en það er hluti af þunglyndinu sjálfu.
Oftast finnur fólk fyrir erfiðleikum með svefn. Margir eiga í erfiðleikum með að sofna, aðrir vakna oft upp eða vakna mjög snemma og geta ekki sofnað aftur. Stundum sefur fólk hins vegar meira en venjulega.
Þyngdaraukning er algeng í þunglyndi. Skýringin er sennilega margþætt s.s. óvirkni með lítilli hreyfingu og óheppilegu mataræði, sem breytist oft með versnandi líðan. Minni matarlyst og þyngdartap fylgir oft djúpu þunglyndi.
Sá sem er þunglyndur upplifir sig oft ekki hafa löngun eða orku til að stunda kynlíf. Til viðbótar orku- og framtaksleysi fylgir oft neikvæð sjálfsmynd. Þess má geta að sum þunglyndislyf geta haft aukaverkanir sem draga úr áhuga og getu til kynlífs.
Ekki er óalgengt að þunglyndir fari að hugsa oftar en áður um dauðann. Með versnandi líðan geta þessar hugsanir þróast í þá átt að þeir telja að fjölskyldan væri betur sett án sín og í versta falli út í löngun til að binda endi á þjáningarnar með sjálfsvígsáformum. Þá er mjög brýnt að leita aðstoðar fagaðila. Gott er að hafa í huga að með faglegri hjálp og stuðningi lagast þunglyndið með tímanum. Mikilvægt er að sleppa ekki taki á þeirri von og vissu að líðanin muni lagast. Hugsanir og áform um sjálfsvíg verða til vegna þess hve erfitt er að lifa en ekki vegnar löngunar til að deyja.