Okkur líður eins og við hugsum! Við getum breytt líðan okkar með því að breyta hugsun okkar, endurskoða og breyta því hvernig við túlkum og metum reynslu okkar. Þegar við keppum að því að byggja upp færni á þessu sviði er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga:
Lausnin á vandamáli þunglyndisins felst auðvitað ekki í því að hugsa bara jákvætt, hvað sem á dynur. Við erum ekki að tala um „Pollýönnuleik“. Þá er hætta á að við lítum framhjá vandamálum sem við þurfum að leysa eða gerum of lítið úr þeim. Óraunhæf bjartsýni hjálpar ekki. Lausnin felst í raunsæi og skynsemi.
Stundum er eðlilegt að fólki líði illa enda er vanlíðan og áföll hluti af lífinu. Það getur varla verið kappsmál að líða aldrei illa, enda ekki mögulegt. Aftur á móti getum við sett okkur það markmið að líða ekki verr en tilefni er til.
„Hugsanir skipta ekki máli en það skiptir máli hvernig þú bregst við þeim“ —Adrian Wells 2009 |
Þeir sem eru þunglyndir eru ekki einir um að túlka og meta lífsreynslu sína á óraunsæjan hátt. Við gerum það öll í mismiklum mæli. Eitt af því sem greinir þunglynda frá öðrum er að þeim hættir til að túlka atburði frekar á neikvæðan hátt og eiga erfitt með að leiðrétta þann misskilning.
Leiðir til að breyta hugsun
|