Hugræn atferlismeðferð (HAM) var fyrst tekin í notkun á kerfisbundinn hátt á geðsviði Reykjalundar árið 1997. Starfsfólk geðsviðs hafði þá tileinkað sér aðferðir HAMsins og menntað sig í fræðunum. Þriggja missera kennsla í HAM fór síðan fram þrívegis á vegum geðsviðs fyrir starfsfólk Reykjalundar. Í ljós hafði komið mikill áhugi starfsfólks á öðrum sviðum stofnunarinnar. Þennan áhuga má túlka þannig að starfsfólk hafi skynjað þarfir sjúklinga sinna vegna andlegrar vanlíðunar og geðraskana og haft löngun til að koma til móts við þær. Starfsfólki leist vel á að hafa í höndum tæki sem það gat notað til að hjálpa skjólstæðingum sínum við þessum vanda. Ekki sakaði að um sannreynda meðferð var að ræða sem rannsóknir sýndu að virkaði og var sett fram þannig að heilbrigðisstarfsmenn gætu veitt meðferðina, að fenginni ákveðinni menntun, þjálfun og handleiðslu.
Starfsmenn geðsviðs gerðu rannsókn á árangri meðferðarinnar, sem stóð yfir í nokkur ár. Nær 200 sjúklingar í endurhæfingu á geðsviði Reykjalundar samþykktu að taka þátt í rannsókn þar sem þeir fengu HAM, ýmist í einstaklingsmeðferð eða hópmeðferð og var árangurinn borinn saman við árangur þeirra sem voru í endurhæfingu á geðsviði en ekki í HAM. Í ljós kom að þeir sem fengu HAM í einstaklingsmeðferð náðu marktækt betri árangri en aðrir sjúklingar, bæði hvað varðar þunglyndi, kvíða og vonleysi. Hópmeðferð bætti hins vegar ekki við þann árangur sem sjúklingar náðu í endurhæfingu og má geta sér til um skýringar á því. Hóparnir voru stórir og blandaðir og gæti það hafa dregið úr árangri. Eins fengu allir þátttakendur mikla meðferð fyrir utan HAM, þar með talið viðtöl og má ætla að sú endurhæfing hafi skilað það góðum árangri að hópmeðferð hafi ekki dugað til að bæta árangurinn enn frekar.
Meðferðarhandbók þessi hefur verið í stöðugri þróun og komið út í mörgum útgáfum. Þegar geðteymið byrjaði að veita hugræna atferlismeðferð 1997 var um að ræða textabrot sem starfsfólk geðteymis samdi, þýddi og þróaði. Lesefni og verkefni hafa verið prófuð í meðferðarstarfi geðteymis. Reynt er að meta notagildi ýmis konar lesefnis og verkefna, og það sem reynist vel er notað áfram.
Mikilvægast við þróun þessarar bókar er þó framlag þeirra sem meðferðin beinist að, sjúklinganna, sem hafa lagt sitt af mörkum við að semja efni og leggja til breytingar með jákvæðum og uppbyggilegum ábendingum.
Kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir.
Pétur Hauksson