DÆMI
Linda hefur verið þunglynd í nokkurn tíma. Hún hefur reynt nokkur þynglyndislyf en án árangurs. Nýlega var henni boðið upp á hugræna atferlismeðferð. Hún er búin að fara í 8 tíma og hefur lært að bera kennsl á þunglyndishugsanir sínar og finna rök gegn þeim. Allt virtist vera á réttri leið en síðustu daga hefur henni liðið verr. Hún er farin að efast um að meðferðin skili árangri og er við það að gefast upp. Vonleysið veldur því að hún hugsar um að sjálfsvíg sé eina lausnin. Við skulum sjá hvernig Linda prófar hugmyndir sínar.
|
Ég er aftur á byrjunarreit. Það er enginn tilgangur með því að gera neitt – ekkert kemur til með að ganga upp. Ég verð alltaf svona. Eina lausnin er að losna úr þjáningunni með því að fyrirfara mér.
Það er satt að mér líður verr en í síðustu viku. En það er ekki rétt að ég sé komin á byrjunarreit. Jafnvel núna líður mér ekki eins illa og þegar ég lagðist inn á spítala síðast. Ég er að sinna heimilisstörfunum, gæta barnanna og að stunda vinnuna mína. Til að vera heiðarleg, þá er ég að fá örlitla ánægju út úr því sem ég er að gera, svo lífið er ekki alveg í rúst. Mér hefur liðið mjög illa, en það má alltaf búast við bakslögum. Vonbrigðin með andstæðurnar þ.e. að líða svo mikið betur í síðustu viku og verr núna gerir þetta erfiðara. Það að fást við hugsanir mínar og tilfinningar er nýr hæfileiki og það mun taka tíma þar til ég get fengist við þær auðveldlega á hverjum degi. Ég verð að muna að ég hef verið þunglynd í 3 ár, en hef ekki verið í þessari meðferð nema í örfáar vikur. Þegar ég hugsa málið nánar, þá ræð ég núna við um það bil 75% af þunglyndishugsununum í stað 25% þegar ég byrjaði í meðferðinni. Sjálfsvíg er ekki svarið. Staðreyndin er að hlutirnir hafa breyst síðan ég byrjaði í þessari meðferð sem sýnir að hún er að virka.
Ég ætla ekki að bregðast of kröftuglega við. Þetta er trúlega bakslag, ekkert meira og ekkert minna. Ég get skipulagt tíma minn þannig að ég geti gert það sem ég hef ánægju af og það sem veitir mér þá tilfinningu að ég hafi náð árangri. Ég ætla að auka virkni mína. Ég get fundið rök á móti neikvæðu hugsununum og notað þau. Ef ég get það ekki ætla ég samt ekki að hafa áhyggjur af því. Á meðan ætla ég að reyna að dreifa huganum. Í stað þess að byrgja allt inni þá get ég líka talað við eiginmanninn. Ég veit að það hjálpar mér.
Niðurstaðan: Þetta virkaði. Ekki undir eins en innan nokkurra daga leið mér mun betur, fór að svara hugsunum mínum og ég er ekki eins döpur eða niðurdregin.
Ég ætla að samþykkja bakslög sem hluta af bataferlinu en ekki sem heimsenda. Ég mun einnig halda áfram að nota þær aðferðir sem ég hef lært til að fást við þunglyndishugsanir mínar. Ég ætla að vera á varðbergi gagnvart tilhneigingunni að vera of hörð við sjálfa mig ef eitthvað fer úrskeiðis, það hjálpar ekki. Ég ætla að muna að vonleysi er hluti af því að vera þunglyndur, en endurspeglar ekki hvernig hlutirnir eru í raun og veru.