Við setjum fram staðhæfingar eins og vísindamenn, til dæmis: „Ef ég ýti á rofann þá kviknar á ljósunum.“ „Honum mun ekki líka vel að ég mótmæli honum.“ „Ef ég stend úti í rigningunni mun ég fá kvef“ og við högum okkur eftir þessum staðhæfingum. Við notum upplýsingar um það sem kemur fyrir okkur og það sem við gerum til að staðfesta staðhæfingar okkar, eða til að breyta þeim.

Þunglyndi gerir okkur erfitt um vik að setja fram raunhæfar staðhæfingar eða að prófa þær með opnum huga. Þegar þunglyndir einstaklingar setja fram staðhæfingar eins og t.d. „Ég mun ekki ráða við þetta“, „Allir halda að ég sé vitlaus“, „Ef ég segi það sem ég hugsa mun mér verða hafnað“ hættir þeim til að líta á þessar staðhæfingar sem staðreyndir en ekki sem hugsun sem getur verið rétt eða röng. Það er erfitt að staldra við og líta hlutlægt á staðreyndir málsins eða prófa þær í framkvæmd og sjá þannig hvort þær eigi við rök að styðjast. Ástæðan er sú að ef við teljum okkur vita hver niðurstaðan verður sjáum við ekki ástæðu til að kanna hana nánar.

Lokaskrefið til að vinna á sjálfvirkum neikvæðum hugsunum er að að láta reyna á hugsanir þínar í ákveðnum aðstæðum. Hvað er það sem þú staðhæfir, við hverju býstu eða með öðrum orðum hverjar eru þínar svartsýnu hugmyndir og forspáForspá: Spá fyrir um eitthvað.? Þegar þú hefur gert þér grein fyrir hvað felst í forspá þinni, skoðar þú rökin sem mæla með henni og á móti. Hvað styður forspána? Ertu með einhverjar sannanir, svo sem fyrri reynslu? Hvað mælir á móti og hvað þarft þú að gera til að komast að því hvort neikvæða hugsunin þín samræmist staðreyndum.