Hægt er að hafa
áhrif á tilfinningar
með því að breyta
hugsun, hegðun
eða líkamlegu
ástandi

Okkur finnst oft að ytri aðstæður, fólk og atvik stjórni líðan okkar. Þegar betur er að gáð hafa okkar eigin viðhorf og viðbrögð oft meira að segja en nokkuð annað.

Sams konar atvik eða aðstæður hafa mismunandi áhrif á fólk. Við höfum öll reynslu af því að bregðast illa við einhverju atviki í fyrstu, en skilningur okkar og túlkun á því sem gerðist getur breyst og okkur líður betur.

 

Dæmisaga

 

  Við þekkjum mörg söguna um manninn og tjakkinn.

Maður var á ferð upp í sveit og lenti í því að það sprakk dekk á bílnum. Það var leiðindaveður og þegar hann ætlaði að skipta um dekkið uppgötvaði hann að tjakkinn vantaði.

Nú voru góð ráð dýr! Hann ákvað að ganga að næsta bæ til að fá lánaðan tjakk. Afleggjarinn heim að bænum var nokkuð langur og hann fór að hugsa. Fyrst fór hann að velta fyrir sér hvort einhver væri heima og ef einhver væri heima hvort það væri til tjakkur á bænum. Það var komið kvöld og hann hafði áhyggjur af því að hann myndi vekja heimilsfólkið og bóndinn yrði pirraður því hann þyrfti að vakna snemma um morguninn til að fara í fjósið.

Þessar hugsanir ollu því að það var orðið nokkuð þungt yfir okkar manni. Hann var orðinn pirraður og neikvæður. Bankaði samt á dyrnar og í dyrunum birtist bóndinn. Áður en bóndinn náði að spyrja erindis, hreytti okkar maður út úr sér: „Þú getur bara átt þinn helv.... tjakk sjálfur!“.

 

Öllum tilfinningum fylgja einhverjar hugsanir.

Ólíkar hugsanir leiða af sér mismunandi tilfinningar. Reiði inniheldur t.d. aðrar hugsanir en depurð. Ef einhver verður fyrir
gagnrýni getur hann orðið reiður ef hann hugsar:

„Það er ósanngjarnt að kenna mér um þetta, þetta er honum sjálfum að kenna.“ Önnur hugsun mundi fremur kalla á depurð:
„Öllu þarf ég að klúðra. Hann er óánægður með mig og hefur ekkert álit á mér.“

 

Aðstæður - Hugsun - Viðbrögð Aðstæður - Hugsun - Viðbrögð