Við sjáum og skiljum hlutina í svart-hvítu þar sem enginn meðalvegur er til. Allt er annað hvort algott eða alslæmt, ómögulegt eða frábært. Ef frammistaðaFrammistaða/færni: Það hvernig einhver stendur sig. Hvernig gengur að gera hlutina. okkar er eitthvað minna en fullkomin getur hún ekki verið annað en misheppnuð.

Þessi hugsunarháttur er undirstaða kröfunnar um fullkomnun. Við óttumst öll mistök, því við að gera mistök finnst okkur við vera misheppnuð og einskis virði. Þessi hugsunarháttur er einnig mjög óraunsær. Til að mynda er varla hægt að finna nokkra manneskju sem er algjörlega heimsk, með öllu ljót og misheppnuð. Ekkert gólf er heldur alveg hreint og varla finnst sú  völundarsmíð sem ekki má betrumbæta.

Allt-eða-ekkert hugsunarháttur getur aldrei verið hjálplegur eða hvetjandi. Þegar við túlkum reynslu okkar með því að þröngva öllu sem okkur varðar í andstæða flokka eða allt-eða-ekkert hólf, er líklegt að það valdi vanlíðan. Hvað svo sem við gerum mun okkur aldrei takast að standast þessar ýktu væntingar.

 

DÆMI

 

  Á bóndadaginn ákvað Sigga að gera sér og Halla manninum sínum glaðan dag. Hún ók honum í
vinnuna og ætlaði að útrétta ýmislegt á fjölskyldubílnum. Sigga hafði ekki keyrt mikið eftir að hún
fékk bílpróf. Samt gekk henni ágætlega að keyra um bæinn og fara allra sinna ferða án þess að
stofna sér eða öðrum í hættu. Hún var þó ekki mjög leikin í því að bakka bílnum í stæði inn á milli
annarra bíla í þröngum götum. Þá skutu upp kollinum hugsanirnar: „Ég kann ekki að bakka inn í
stæði. Ég er lélegur bílstjóri.“

Sigga kom heim klyfjuð innkaupapokum og hófst handa við að elda dýrindis máltíð og lagði á borð
fyrir tvo. Þegar hún bar salatið inn í stofu horfði hún á skálina og hugsaði með sér: „Æ, það hefði
þurft að vera paprika í þessu. Þetta er alveg misheppnaður matur hjá mér.“