Margir sem þjást af þunglyndi kannast einnig við kvíða. Einkenni kvíða eru margþætt og birtast bæði í tilfinningum, líkamlegum einkennum og hugsunum. Kvíði og spenna hafa einnig áhrif á athygli, einbeitingu og minni.

Tilfinningar sem tengjast kvíða eru til dæmis hræðsla, ótti og áhyggjur.

  Tilfinningar sem
tengjast kvíða eru til
dæmis hræðsla, ótti
og áhyggjur.

Líkamleg einkenni sem geta tengst kvíða eru til dæmis vöðvaspenna, sviti, skjálfti, hröð öndun, flökurleiki, niðurgangur, höfuðverkur, svimi og óreglulegur eða hraður hjartsláttur.

Hugsanir sem tengjast kvíða eru til dæmis að búast við hinu versta, óttast að eitthvað slæmt muni gerast eða að okkur muni mistakast. Kvíðahugsanir eru oft tengdar því sem á eftir að gerast í framtíðinni og frekar er búist við að illa fari.

Tilhlökkun er líka tilfinning sem tengist framtíðinni og líkamlegum einkennum sem valda spennu. En munurinn er að við tilhlökkun er búist við einhverju jákvæðu.

Kvíði er eðlileg tilfinning og það finna allir fyrir kvíða þegar hætta er í aðsigi eða þegar við þurfum að gera eitthvað sem veldur okkur óöryggi. Líkamleg spenna sem fylgir kvíðanum setur okkur í viðbragðsstöðu svo við getum brugðist hratt við ef þörf er á. Óraunhæfur kvíði er hins vegar ekki gagnlegur og jafnvel skaðlegur ef hann er viðvarandi og dregur úr lífsgæðum fólks. Átt er við kvíða sem birtist án þess að hætta sé á ferð eða heldur áfram löngu eftir að hættan er liðin hjá.

Kvíði er algengur í hvers kyns streituvekjandi aðstæðum.

Markmiðið er ekki að útiloka kvíða algjörlega úr lífinu en það er hægt er að læra að bregðast öðruvísi við honum og stuðla þannig að aukinni þátttöku í lífinu og lífsgæðum.

  Hægt er að stjórna kvíða með því að læra að stjórna
kvíðavekjandi hugsunum og takast á við aðstæðurnar
frekar en að flýja þær. Stundum er gott að gera það í
áföngum eða taka eitt skref í einu.