Þessi meðferðar- og sjálfshjálparhandbók er skrifuð með það fyrir augum að hún nýtist sem leiðarvísir í meðferð við þunglyndi. Hún hefur einnig verið höfð til hliðsjónar við meðferð kvíða og annarra geðraskana og hefur þá verið aðlöguð að þörfum hvers og eins.

Þær aðferðir sem hér eru kenndar hafa reynst hjálplegar við þunglyndi. Í meðaldjúpu og vægu þunglyndi getur sálræn meðferð ein og sér gagnast vel. Ekkert mælir þó á móti lyfjameðferð samhliða hugrænni atferlismeðferðHugræn atferlismeðferð (HAM): Meðferð sem beinist að því að breyta hugsun og/eða hegðun til að hafa áhrif á líðan.. En í alvarlegu þunglyndi er mikilvægt að þú leitir þér hjálpar því þá getur lyfjameðferð verið nauðsynleg.

Bókin er í tólf köflum. Fyrstu kaflarnir beinast að því að setja sér markmið, finna leiðir til að takast á við vandann og breyta hegðun. Í næstu köflum er áherslan á að þekkja tilfinningar og hugsanir og finna leiðir til að breyta neikvæðum hugsunarhætti til að hafa áhrif á líðan. Síðustu kaflarnir beinast svo að sjálfseflingu, bakslagsvörnum og hættumerkjum.

Í hverjum kafla er bæði fræðsla og verkefni. Það getur gert þér gott að vinna verkefnin og hjálpað þér áleiðis í bataferlinu en aðstoð fagaðila er líkleg til að bæta árangurinn enn frekar.

Það tekur tíma að breyta gömlum venjum og hugsanamynstri svo ekki gefast upp þó þú náir ekki að tileinka þér þessar aðferðir alveg strax. Æfingin skapar meistarann í þessu eins og svo mörgu öðru.

Efni bókarinnar á jafnt við um bæði kynin þó karlkyn sé notað í textanum til að einfalda framsetningu.

Í hverjum kafla er líka hægt að hlusta á textann. Einnig er hægt að hlaða niður allri bókinni með einni hljóðskrá (MP3) sem er 175 MB og er staðsett eftir 12. kaflann.

Gangi þér vel!

 

HAM